
25. nóvember 2024
Besta fjárfesting í hönnun
Krónan hlaut á dögunum viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024 og er til fyrirmyndar í margvíslegu samstarfi sínu við hönnuði, þar sem rauði þráðurinn er aukin umhverfisvitund og sjálfbærni.
Krónan hefur markvisst starfað með skapandi fólki og hönnuðum í margvíslegum verkefnum, allt frá því að skapa og þróa hugmyndir með kraftmiklum nemendum í Listaháskóla Íslands yfir í samstarf með frumkvöðlum, vöruhönnuðum og arkitektum í gegnum samstarf við meðal annars Stúdíó Fléttu, Meltu, Plastplan og arkitektastofuna DAP.
„Hönnun hjálpar okkur að mæta fjölbreyttum og síbreytilegum þörfum viðskiptavina, auka og miðla sjálfbærni og síðast en ekki síst að skapa rými þar sem við öll finnum okkur velkomin,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.